Fara í efni

Stórurð, 2. september 2023

Náttúrufegurð og litadýrð við rætur Dyrfjalla.

Frábært tækifæri til að upplifa stórbrotna náttúrufegurð:

  • Dyrfjöll
  • Stórurð
  • Njarðvík
  • Bakkagerði
  • Borgarfjörður eystri

Ferðaáætlun

Dagsferð frá Akureyri. Val um göngu í Stórurð eða heimsækja þorpið Bakkagerði og taka styttri göngur þar.

Dagurinn er tekinn snemma, lagt af stað frá Akureyri kl. 06:00. Ekið sem leið liggur austur á Borgarfjörð eystri. Gangan í Stórurð hefst við þjónustuhúsið í Vatnsskarði. Þaðan er gengið á Geldingafjall (um 270 m hækkun) og eftir Geldingaskörðum í Stórurð. Því næst er gengið niður í sjálfa urðina en um hana liggja merktar gönguleiðir. Frá Stórurð munu veður og aðstæður ráða hvort gengið verður til baka um Urðardal, undir Lönguhlíð og niður á bílastæði neðan Vatnsskarðs eða niður til Njarðvíkur.

Þeir sem ekki ganga í Stórurð halda áfram til Borgarfjarðar eystri. Á leiðinni niður í Njarðvík er stoppað við Innra Hvanngil en stutt og auðveld ganga er inn í það. Gilið einkennist af svörtum basalt-berggöngum sem kljúfa líparítskriður þannig að úr verður sérkennilegt samspil ólíkra lita og bergtegunda. Í Njarðvíkurskriðum verður útsýnisstopp við Naddakross. Við komuna til Bakkagerðis verður fyrst farið í Hafnarhólmann en þar er mikil náttúrufegurð, frábær aðstaða til fuglaskoðunar og glæsilegt kaffihús þar sem auk veitinga er boðið upp á listasýningar, ljósmyndasýningar og handverkssölu. Eftir góða viðdvöl í Hafnarhólmanum verður þorpið  Bakkagerði heimsótt. Þar geta þátttakendur skoðað sig um á eigin spýtur,  m.a. er tilvalið að ganga þægilega leið á sjálfa Álfaborgina.

Á heimleiðinni verður stoppað í um tvær klukkustundir á Egilsstöðum. Þar fá þátttakendur frjálsan tíma til að skoða sig um, fara í sund og/eða á veitingastað. Þeim sem hafa áhuga á að fara í Vök verður skutlað þangað en um er að ræða einstaklega fallegan baðstað við Urriðavatn.

Áætluð koma til Akureyrar er um kl.  22:30.

Hvað þarf að taka með

  • nesti og drykki
  • fatnað sem hæfir veðri og aðstæðum
  • góða gönguskó
  • göngustafi
  • sundfatnað og handklæði fyrir þá sem ætla í Vök eða sund á Egilsstöðum

Tungumál leiðsögumanns

  • Íslenska