Fara í efni

Vestfirðir 10. - 13. júní

Sjávarþorp, firðir, fjöll og einstök náttúra.

Fjögurra daga ferð um Vestfirði, þrjár gistinætur. 

Þægileg rútuferð með leiðsögn um Vestfirði. Hægt er að velja um að byrja ferðina á Akureyri eða í Reykjavík. Á fyrsta degi verður hægt að koma inn í ferðina í Varmahlíð, Blönduósi, Staðarskála, Borgarnesi, Búðardal eða á Hólmavík. Þeir sem kjósa að hefja ferðina í Reykjavík verða ferjaðir í Búðardal og munu þar hitta ferðafélagana sem koma frá Akureyri. 

Verð miðað við tvo í herbergi kr. 98.900

Verð miðað við einn í herbergi kr. 124.900

Innifalið í verði er rútufar og gisting með morgunmat. Staðfestingargjald kr. 10.000 greiðist við skráningu. Lokagreiðsla þarf að fara fram eigi síðar en föstudaginn 7. maí 2021.

Gisting:

 • Hótel Sandafell á Þingeyri, tvær nætur.
 • Hótel Flókalundur, ein nótt.

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast með því að senda póst á sba@sba.is eða hringja í s. 5 500 700.

Ferðaáætlun

Dagur 1

Akureyri / Reykjavík - Hólmavík - Ísafjörður - Þingeyri

Lagt af stað frá Akureyri kl. 07:00 og kl. 08 frá Reykjavík. Eftir þægindastopp í Búðardal verður farið um Þröskulda til Hólmavíkur en þar verður hádegishlé. Frá Hólmavík verður ekið sem leið liggur yfir Steingrímsfjarðarheiði, um Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar en á leiðinni til Ísafjarðar verða tekin útsýnis- og þægindastopp. Eftir kvöldmat á Ísafirði liggur leiðin til Þingeyrar þar sem gist verður í tvær nætur. 

Dagur 2

Þingeyri - Flateyri - Ísafjörður - Bolungarvík - Þingeyri

Byrjum daginn rólega þar sem dagskrá fyrsta dagsins var nokkuð stíf. Gefum okkur góðan tíma til að skoða okkur um á norðanverðum Vestfjörðum. Helstu viðfangsefni dagsins eru:

 • Róleg gönguferð um Þingeyri, lítum á elstu húsin, víkingasvæðið og áhugasamir geta skoðað elstu starfandi vélsmiðju landsins. 
 • Skoðunarferð um Flateyri.
 • Hádegisverður á Ísafirði.
 • Bæjarskoðun á Ísafirði, gönguferð. Áhersla á Neðstakaupstað og miðbæinn.
 • Bolafjall. Ekið upp á fjallið og góður tími gefinn til að njóta útsýnis þaðan.
 • Kvöldverður á Þingeyri.

Eftir kvöldmat geta þeir sem vilja gengið með leiðsögumanni upp á Sandafell (362 m y.s.) en þaðan er gríðarlega gott útsýni yfir Dýrafjörð.

Dagur 3

Þingeyri - Dynjandi - Látrabjarg - Rauðisandur - Flókalundur

Kveðjum Þingeyri og höldum á sunnanverða Vestfirði. Hápunktar dagsins eru fossaröðin í Dynjanda, Látrabjarg og Rauðisandur. 

Gist í Flókalundi og þar verður snæddur kvöldverður. Um kvöldið gefst tími til að skoða sig um á svæðinu en þar eru bæði fallegar gönguleiðir og vinsæl náttúrulaug.

Dagur 4

Flókalundur - Búðardalur - Akureyri

Ekið frá Flókalundi í Búðardal með nokkrum útsýnisstoppum. Hádegishlé í Leifsbúð í Búðardal. Þeir sem hafa áhuga geta heimsótt Vínlandssetrið en þar er ný sögusýning sem gerir grein fyrir landafundum norænna manna á Grænlandi, í Kananda og í Bandaríkjunum.

Í Búðardal skilja leiðir, bíll bíður eftir þeim sem fara til Reykjavíkur en aðrir halda áfram til Akureyrar. Áætluð koma til Reykjavíkur er um kl. 16 og til Akureyrar um kl. 17:15.

Hvað þarf að taka með

 • Þægilegur fatnaður sem tekur mið af veðurfari.
 • Góðir skór, göngustafir geta komið sér vel.
 • Nesti ef vill, t.d. fyrir fyrsta daginn.

Tungumál leiðsögumanns

 • Íslenska