Fara í efni

Gæða- og öryggismál

Góð þjónusta og öryggi farþega er forgangsatriði í rekstri SBA-Norðurleiðar. Starfsmönnum ber að kynna sér öryggis- og viðbragðsáætlanir fyrirtækisins.  Viðbragðsáætlanir eru í öllum bílum, bæði á íslensku og ensku en þeim ber að fylgja ef óhapp eða slys verður. Ef einhver vafaatriði koma upp, t.d. varðandi veður og færð, á skilyrðislaust að leita eftir áliti næsta yfirmanns.

Bílstjórar þurfa alltaf að kynna sér eiginleika bifreiðanna sem þeir aka og vera vakandi fyrir ástandi þeirra. Þeir þurfa líka að hugsa um öryggi farþega og upplýsa þá um nauðsyn þess að nota bílbelti. Þegar stoppað er á viðkomustöðum þarf að velja eins örugga staðsetningu og hægt er.

Leiðsögumenn þurfa ætíð að huga að öryggi farþega. Þeim ber að upplýsa farþega um nauðsyn þess að nota bílbelti og vara þá við hálku, hvassviðri og öðrum mögulegum hættum þar sem stoppað er. Nauðsynlegt er að hafa viðmið Veðurstofu Íslands um vindstyrk í huga. 

 Í umferðinni

SBA-Norðurleið leggur ríka áherslu á að bílstjórar fyrirtækisins séu alltaf til fyrirmyndar í umferðinni t.d. með því að:

  • Forðast óþarfa framúrakstur.
  • Leggja einungis í bílastæði sem eru ætluð hópferðabílum.
  • Stoppa á öruggum stöðum.
  • Taka „myndastopp“ einungis á merktum stæðum.
  • Virða akstursbann á afmörkuðum svæðum í þéttbýli, t.d. í miðbæ Reykjavíkur.

ÖRYGGISBELTI
Samkvæmt íslenskum lögum er farþegum í hópferðabifreiðum skylt að nota öryggisbelti sé bifreiðin þannig útbúin. Allar hópferðabifreiðar SBA-Norðurleiðar eru útbúnar með öryggisbeltum og er skylda að allir farþegar sitji með öryggisbeltin spennt á meðan bifreiðar eru á ferðinni.

FYRSTA HJÁLP
Allar hópferðabifreiðar SBA-Norðurleiðar eru útbúnar með sjúkrakössum. Kassarnir eru reglulega skoðaðir og endurfylltir eftir þörfum af sérhæfðum aðilum. Það er hluti af daglegri ökutækjaskoðun bílstjórans að kanna hvort sjúkrakassinn sé tilbúinn til notkunar.

SLÖKKVITÆKI
Allar hópferðabifreiðar skulu vera útbúnar slökkvitæki samkvæmt umferðarlögum. Hópferðabifreiðar SBA-Norðurleiðar eru allar útbúnar tveimur slökkvitækjum sem eru innsigluð og yfirfarin af sérhæfðum aðilum árlega.

ÖRYGGISBÚNAÐUR
Í öllum bifreiðum fyrirtækisins er að finna öryggisvesti, viðvörunarþríhyrning og vasaljós. Í bifreiðunum er GPS flotastýringarkerfi og því geta yfirmenn fylgst með nákvæmri staðsetningu bifreiðanna og ökuhraða þeirra í rauntíma. Fyrirtækið getur einnig látið viðskiptavini sína vita hvar bíllinn er staðsettur öllum stundum og hversu langa vegalengd hann hefur ferðast.

VIÐHALD BIFREIÐANNA
Það er  stefna fyrirtækisins að bifreiðar þess séu ávallt í sem bestu ástandi. Allt viðhald er í höndum viðgerðarteymis fyrirtækisins og viðhaldsskrá er haldin af yfirmanni verkstæðis. Hópferðabifreiðar verða að standast reglubundna bifreiðaskoðun á hverju ári til að viðhalda hópferðaleyfi sínu.

STARFSFÓLK
Allir bílstjórar hafa tilskilin ökuréttindi fyrir það ökutæki sem ekið er hverju sinni. Ökuskirteini er athugað þegar nýjir bílstjórar eru ráðnir. Sérstök ökuskírteinaskrá er haldin til að tryggja að öll ökuréttindi séu í gildi. Bílstjórar fyrirtækisins sækja reglulega endurmenntunarnámskeið í skyndihjálp auk þess sem þeir hafa farið á akstursnámskeið á vegum Mercedes-Benz í Þýskalandi. SBA-Norðurleið áskilur sér rétt til að kanna sakaskrá starfsmanna og láta þá gangast undir áfengis- og fíkniefnapróf.

Við viljum endilega heyra frá þér. SBA-Norðurleið fagnar öllum ábendingum hvort sem um er að ræða ánægjulega þjónustu eða eitthvað sem betur mætti fara.

Hrós Kvörtun