Fara í efni

Umhverfisstefna

SBA-Norðurleið er umhugað um nátturuvernd og að starfa í sátt við samfélagið. Fyrirtækið er meðvitað um þau neikvæðu áhrif sem rekstur hópbifreiða getur haft á umhverfið og hefur sett skýr viðmið til að lágmarka þau eins og kostur er. Umhverfisstefnan byggir á lögum og reglugerðum sem gilda um umhverfismál á Íslandi og er endurskoðuð reglulega. Fyrirtækið leggur ríka áherslu á endurnýtingu, endurvinnslu, verndun umhverfisins og lágmörkun úrgangs. Það er okkar hagur, eins og annarra Íslendinga, að landið beri ekki skaða af ágangi ferðamanna.

Aðgerðir sem gripið hefur verið til til að lágmarka umhverfisáhrif fyrirtækisins:
 • Endurnýja aðeins bílaflota fyrirtækisins með bifreiðum sem uppfylla tilskilda evrópska mengunarstaðla á hverjum tímapunkti.
 • Nota bifreiðir sem hæfa hópastærðum sem best.
 • Úrgangur fyrirtækisins er flokkaður, endurnýttur og endurunninn auk þess sem reynt er að draga úr úrgangsmagni eins og kostur er.
 • Bílstjórar fyrirtækisins hafa fengið fræðslu í vistakstri til að lágmarka olíunotkun og útblástur.
 • Bann við óþörfum lausagangi bifreiða.
 • Þjálfa starfsmenn með umhverfisstefnu fyrirtækisins að leiðarljósi. Koma henni á framfæri við viðskiptavini okkar og leiðbeina þeim hvernig þeir geta tekið þátt í að aðstoða okkur.
Reglur um lausagang bifreiða

Í reglugerð um varnir gegn loftmengun (nr. 788/1999, 6. gr.) er kveðið á um að óheimilt sé að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin. Jafnframt að óheimilt er að láta vélar kyrrstæðra ökutækja ganga lengur en í örstutta stund nema sérstaklega standi á.

Aðstæður sem réttlæta lausagang bifreiða geta t.d. verið:
 • Undirbúningur aksturs í frosti.
 • Mikill raki sem safnast á rúður og hindrar útsýni.
 • Ef olíumiðstöð er ekki í lagi (nauðsynlegt að upplýsa verkstæði um bilun).
 • Ef loftkerfi er óþétt (nauðsynlegt að upplýsa verkstæði um bilun).
Sérstaklega skal forðast lausagang bifreiða:
 • Við skóla, íþróttamannvirki og hótel.
 • Í íbúðarhverfum.
 • Þar sem margar hópferðabifreiðar bíða á sama tíma eftir farþegum, t.d. úr skemmtiferðaskipum.
 • Við þrif, hvort sem er fyrir utan starfsstöðvar SBA eða annars staðar.
Umgengni við náttúruna

Starfsmönnum SBA-Norðurleiðar er uppálagt að haga allri umgengni við náttúruna þannig að hún beri ekki skaða af. Starfsmönnum ber að virða gildandi lög um náttúruvernd og fara eftir reglum í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum.
Alltaf er ekið eftir merktum vegum eða viðurkenndum ökuslóðum. Aðeins er ekið yfir vatnsföll þar sem vöð eru, farið er út í ár og upp úr þeim þannig að komið sé í veg fyrir skemmdir á bökkum.
Merktir áningarstaðir eru notaðir eins og kostur er og þegar þeir eru yfirgefnir er gengið úr skugga um að ekkert rusl sé skilið eftir.
Bílstjórar og leiðsögumenn minna gesti á ábyrga hegðun gagnvart umhverfinu.

Flokkun úrgangs

Flokkun úrgangs er mikilvægur liður í sjálfbærni ferðaþjónustu. Allir starfsmenn þurf að sameinast um ábyrga flokkun úrgangs. Viðeignadi gámar og tunnur eru á starfsstöðum fyrirtækisins.