Fara í efni

Hjólastólabifreiðar til SBA

SBA-Norðurleið hefur tekið í notkun tvær hjólastólabifreiðar af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter og Iveco Feniksbus. Iveco bifreiðin er í hefðbundinni hópbifreiðaútfærslu með 25 farþegasæti og stæði fyrir einn hjólastól. Auka hurð aftast hægra megin og rafdrifin hjólastólalyfta þýðir að á einfaldan og fljótlegan hátt má keyra stólinn inn og út úr bifreiðinni á sama tíma og aðrir farþegar ganga inn að framan. 

Sprinter bifreiðin er alla jafna útbúin með 13 farþegasætum en á skömmum tíma má smella farþegasætunum úr hraðtengjum til að skapa pláss fyrir allt að fjóra hjólastóla og sæti fyrir aðstoðarmenn. 

"Þessi viðbót tveggja hjólastólabifreiða er afar ánægjuleg fyrir fyrirtækið. Hún gerir okkur kleift að þjónusta betur ört stækkandi og fjölbreyttan hóp innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna og gæta á sama tíma fyllsta öryggis og uppfylla alla öryggisstaðla" segir Gunnar M. Guðmundsson framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir af bifreiðunum og hjólastólaútbúnaði þeirra.