Fara í efni

SBA framúrskarandi árið 2020

Creditinfo hefur birt lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2019. Þetta er í ellefta sinn sem Creditinfo veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu en í ár eru 842 fyrirtæki á listanum eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi. 

Framúrskarandi fyrirtækjum fækkar lítillega á milli ára en í fyrra voru 887 fyrirtæki á listanum. Að mati sérfræðinga hjá Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að einhver kólnun í íslensku atvinnulífi hafi átt sér stað óháð COVID. Sú staðreynd að fækkunin er hlutfallslega lítil er hins vegar gott merki um að íslenskt atvinnulíf stendur sterkum fótum, sem skiptir máli í því áfalli sem COVID-19 faraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf.

Það sem einkennir listann í ár er að byggingarfyrirtækjum fjölgar líkt og í fyrra og eru nú orðin 115 talsins. Ferðaþjónustufyrirtækjum fer fækkandi eða frá 80 fyrirtækjum í fyrra niður í 64 í ár. Þá fækkar fjármála- og vátryggingafélögum á lista sömuleiðis og eru þau nú 30 miðað við 41 á síðastliðnu ári.

Skilyrði Framúrskarandi fyrirtækja:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
  • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú ár
  • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú ár 
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár

Hér má lesa sérblað Morgunblaðsins um framúrskarandi fyrirtæki árið 2020